Það er allt að gerast hjá okkur!
- May 23
- 2 min read

Kæru vinir,
Við vildum bara kíkja við og segja: Hæ!
Þetta er fyrsta fréttabréfið okkar, og við erum svo spennt að deila með ykkur því sem er að gerast hjá Teen Challenge Íslandi um þessar mundir.
Við kveðjum Draumsetrið með þakklæti
Eftir frábæran vetur í Draumsetrinu er komið að lokum þar – við höfum verið með starfsemi á staðnum síðan í lok ágúst 2024 og höfum átt þar margar dýrmætar stundir. Við þökkum kærlega fyrir samstarfið. Guð hefur verið trúr og við sjáum svo sannarlega hvað hann hafði í huga með þessum tíma.
Tjaldið okkar í Laugardal – nýtt ævintýri framundan!
Nú erum við farin að undirbúa tjaldið okkar í Laugardalnum sem opnar í sumar! Þetta verður hjarta og heimili fyrir samveru, lofgjörð, vitnisburði og hlýlegt samfélag – þar sem allir eru velkomnir. Þemað okkar snýst um að skapa stað þar sem fólk upplifir frið (sanctuary), fegurð, gestrisni og notalegt andrúmsloft. Við segjum ykkur meira bráðlega – þannig að fylgist endilega með!
Fangelsisþjónusta – TC Von
Í febrúar hófum við reglulega þjónustu á meðferðargangi fangelsisins á Litla-Hrauni. Þar heimsækjum við strákana einu sinni í mánuði með lofgjörð, vitnisburði og samtali. Við munum einnig fljótlega hefja heimsóknir í fangelsið að Sogni.
Við erum afar þakklát fyrir samstarf okkar við Afstöðu – félag fanga á Íslandi. Í gegnum það samstarf höfum við fengið tækifæri til að tengjast einstaklingum sem eru að leita að nýju upphafi og frelsi í lífi sínu.
TC Hjálparhönd
Er hluti af starfsemi Teen Challenge sem einbeitir sér að því að mæta heimilislausu fólki og þeim sem eru á jaðri samfélagsins með kærleika og virðingu. Við förum í vikulegt trúboð á götum borgarinnar, þar sem við bjóðum upp á samtal, bæn og stuðning – og minnum á að enginn er gleymdur - náð Guðs er ný á hverjum degi og hann ELSKAR alla.
Við fáum einnig að þjóna reglulega í Kaffistofu Samhjálpar, þar sem við sinnum sömu einstaklingum. Það er dýrmætt að fá að vera hluti af því sem Guð er að gera í gegnum þá þjónustu.
Sumarhátíð og afmæli – 5 ár af von!
Í ár eigum við líka stór afmæli (okkur finnst það alla vega) – Teen Challenge á Íslandi fagnar 5 árum! Af því tilefni ætlum við að halda eina veglega sumarhátíð þar sem við lítum um öxl og fögnum öllu því sem Guð hefur gert í gegnum starfið. Það verður lofgjörð, orð, gleði og samfélag – og við vonum að sjá sem flesta ykkar með okkur.
📅 Dagskráin er komin inn á Facebook-síðuna okkar – kíkið endilega!
Við erum virkilega þakklát fyrir ykkur öll sem styðjið við okkur, hvort sem það er með bænum, þjónustu eða styrkjum. Þetta er sameiginlegt ferðalag – og við hlökkum til sumarsins með ykkur.
Með kærleika og von,
Svava og teymið hjá Teen Challenge Ísland
Comentarios