Von sem ferðast yfir heimsálfur – Bernie og Cathy koma til Íslands
- May 25
- 2 min read
Það er einstakt tækifæri fram undan þegar Bernie og Cathy Gillott heimsækja Ísland og taka þátt í starfi okkar með Teen Challenge. Þau hafa ferðast rúmlega 1,6 milljónir kílómetra um sex heimsálfur og orðið vitni að umbreytandi krafti Guðs hvar sem þau hafa komið. Þau hafa þjónað fólki sem glímir við ýmiss konar lífsáskoranir (fíkn, ofbeldi, afbrot og misnotkun) og hafa með eigin augum séð hvernig Jesús frelsar, læknar og endurreisir.
Með yfir 45 ára reynslu af þjónustu hjá Teen Challenge hafa þau mótast af því að vera meðal þeirra sem minna mega sín. Þau eru ekki bara með fræðilega þekkingu heldur hafa þau reynt og séð hvernig Drottinn virkar í raun.
Þau eru spennt fyrir að koma til Íslands og finna í hjarta sínu að Drottinn mun gera eitthvað magnað á þessum tímamótum! Það er von fyrir alla og þau bera hana með sér með smurningu sinni og þjónustu í Guðsríki.
Bernie og Cathy munu taka þátt í fjölbreyttri þjónustu á Íslandi – þau munu prédika, leiða lofgjörð, heimsækja fangelsi, vera með okkur í götutrúboði og deila kraftmiklum vitnisburði. Þau lifa og kenna með því að mæta fólki þar sem það er statt, og snerta hjörtu með nánd, hlýju og visku. Þjónusta þeirra snýst um að koma með ljós og líf þangað sem myrkrið hefur haft yfirhöndina – og við erum spennt að fá þau með okkur í þessa vegferð hér á landi.
Það er eitthvað dýrmætt við að fá gesti sem eru ekki bara reynslumiklir heldur brenna líka fyrir því sama og við: að sjá fólk upplifa frelsi í Kristi. Við hvetjum alla sem geta til að taka þátt í viðburðum þar sem þau leiða – þetta verður ekki bara samvera, heldur dýrmæt uppörvun fyrir okkur öll.

コメント